sunnudagur, september 20, 2009

Ellefuáin

Við ungarnir erum búin að vera ein í kotinu síðan á föstudagsmorgun, því húsbóndinn brá sér til London að spila golf fyrir hönd Landsbankans. Í gær var yndislegt haustveður, logn og sól. Við ákváðum að fara í göngu/hjóla túr niður að Elliðaá eða Ellefuá eins og Hekla kýs að kalla hana. Hekla hjólaði á litlu hjóli með hjálpardekkjum og var rosalega dugleg allan tímann. Þetta er smá spotti sem við fórum (langt fyrir hana), héðan niður að Ártúnsskóla, þar niður með Árbæjarsafninu og svo upp eftir Rafstöðvaveginum að stíflunni og þaðan svo heim. En niðurá stíflu stoppuðum við aðeins og borðuðum dýrindis nesti, sem samanstóð af cheerios og rúsínum í poka :) Sáum endurnar og svo risastóran lax (held að það hafi verið lax, allavega mjög stór fiskur) stökkva eftir flugu lenst upp í loft! Mjög skemmtilegt kodak móment, en það var samt engin kódak með í för í þetta skipti.
Hekla situr inn í stofu og horfir stjörf á Latabæ. Hún er að horfa á þætti sem hún hefur ekki séð mjög lengi og það var ósvikin gleði yfir henni þegar ég kveikti á þessu áðan. Stundum finnst mér nóg um hvað hún er hrikalega mikill aðdáandi þeirra álfs og sollu, veit ekki hvað ég á að halda þegar hún tjáir mér að hún elski íþróttaálfinn og Sollu :) Áðan var hún svo að horfa á senu þar sem Solla sendir álfinum hjálparbeiðni í formi flugskeytis sem ratar í flugskipið þar sem álfurinn býr og þá rann upp fyrir henni mjög mikilvæg hugmynd. Hún ætlar að gefa íþróttakvikindinu lendingapall fyrir flugskipið sitt í afmælisgjöf!

Logi er svo mikið að koma til í þroska núna, er farinn að babbla og benda á hluti, þetta er farið að líkjast svona samtali hjá okkur, hann bendir og babblar og ég svara. Hann er löngu farinn að segja babba og mamma, en núna er hann farinn að segja datt líka, en það hljómar samt aðeins öðruvísi, meira eins og bah! Og honum finnst mjög skemmtilegt að henda duddunni á gólfið, benda og segja bah! Hann er aðeins farinn að sleppa takinu þegar hann stendur, ekki mikið þó, en aðeins.
Ég færði leikfanga eldhúsið hennar Heklu inn í herbergið hans Loga því það er by far uppáhalds leikfangið hans, hann getur dundað sér mikið við það. Hekla er svo góð að hún vill bara gefa bróður sínum það, en ég sagði henni að hann fengi það bara lánað í bili.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim